Hamarsmenn unnu Suðurlandsslaginn gegn Selfyssingum í 1. deild karla í körfubolta þegar liðin mættust í Gjánni á Selfossi í kvöld.
Sigurinn var torsóttur og ekki hægt að segja að körfuboltinn sem boðið var uppá hafi verið áferðarfallegur. Það var hart barist og skotnýting beggja liða var afleit á köflum en leikurinn var lengst af jafn.
Staðan í hálfleik var 37-36, Selfyssingum í vil. Seinni hálfleikur var í járnum og það var ekki fyrr en í fjórða leikhluta að hlutirnir fóru að falla með Hvergerðingum. Þeir byrjuðu síðasta fjórðunginn á 14-3 áhlaupi og breyttu stöðunni í 56-67. Selfyssingar áttu fá svör á lokakaflanum og gestirnir lönduðu sætum sigri.
Hjá Selfyssingum var Aljaz Vidmar sterkastur með 19 stig og 11 fráköst, Terrence Motley skoraði 12 stig, tók 10 fráköst og sendi 7 stoðsendingar og Sveinn Búi Birgisson skoraði 13 stig og tók 8 fráköst.
Michael Philips var sterkur hjá Hamarsmönnum með 20 stig og 8 fráköst, Jose Aldana skoraði 18 stig, sendi 9 stoðsendingar og tók 7 fráköst og Ruud Lutterman skoraði 14 stig og tók 10 fráköst.
Hamar er í 2. sæti deildarinnar með 12 stig, eins og Breiðablik sem er í toppsætinu, en Selfoss er á botninum með 2 stig.
Tölfræði Selfoss: Aljaz Vidmar 19/11 fráköst, Sveinn Búi Birgisson 13/8 fráköst, Terrence Motley 12/10 fráköst/7 stoðsendingar, Kristijan Vladovic 9, Kennedy Aigbogun 6, Ari Gylfason 5.
Tölfræði Hamars: Michael Philips 20/8 fráköst, Jose Aldana 18/7 fráköst/9 stoðsendingar/5 stolnir, Ruud Lutterman 14/10 fráköst, Pálmi Geir Jónsson 10/4 fráköst, Ragnar Jósef Ragnarsson 5, Ragnar Magni Sigurjónsson 3, Steinar Snær Guðmundsson 1.