Hvolsskóli er meðal tólf skóla í úrslitum í Skólahreysti sem fara fram í dag miðvikudaginn 20. apríl í Laugardalshöll.
Auk Hvolsskóla keppa keppa eftirtaldir skólar til úrslita: Árskóli á Sauðarkróki, Egilsstaðaskóli, Grundaskóli á Akranesi, Grunnskólinn á Ísafirði, Hagaskóli, Kelduskóli og Laugalækjarskóli frá Reykjavík, Holtaskóli í Reykjanesbæ, Lindaskóli úr Kópavogi, Síðuskóli á Akureyri og Stóru-Vogaskóli úr Vogum.
Fyrir Hvolsskóla keppa þau Elín Eva Sigurðardóttir og Þormar Elvarsson í hraðaþraut, Ásta Sól Hlíðdal tekur armbeygjur og hreystigreip og Magnús Bjarni Fannarsson tekur upphífingar og dýfur.
Keppnisgreinarnar í Skólahreysti eru armbeygjur, dýfur, hreystigreip, upphífingar og hraðaþraut. Stúlkurnar keppa í armbeygjum og hreystigreip en drengir í upphífingum og dýfum. Tveggja manna lið keppa í hraðaþraut.
Landsbankinn veitir nemendafélögum þriggja efstu skólanna vegleg peningaverðlaun. Keppendur í þremur efstu sætum fá einnig sérstök verðlaun.
Landsbankinn er bakhjarl Skólahreysti og frítt er inn á keppnina í Laugardalshöll í boði bankans. RÚV sýnir beint frá keppninni og hefst útsending kl. 20:00 í kvöld.