Hvolsskóli og Vallaskóli mætast í úrslitum Skólahreysti

Tveir skólar af Suðurlandi eru í hópi tólf liða sem mætast í úrslitum í Skólahreysti sem fara fram í kvöld í Laugardalshöll.

Mikil hefð er fyrir Skólahreysti í báðum skólum. Hvolsskóli hefur farið fimm sinnum í úrslit en Vallaskóli hefur farið einu sinni áður í úrslit.

Keppendur frá Hvolsskóla eru þau Kristján Páll Árnason sem keppir í upphífingum og dýfum, Aron Örn Þrastarson keppir í hraðaþraut, Vigdís Árnadóttir tekur armbeygjur og hreystigreip og Birta Rós Hlíðdal keppir í hraðaþraut.

Keppendur frá Vallaskóla eru þau Eydís Arna Birgisdóttir sem fer í armbeygjur og hreystigreip, Eysteinn Máni Oddsson sem keppir í hraðaþraut, Rannveig Harpa Jónþórsdóttir einnig í hraðaþraut og Teitur Örn Einarsson sem fer í upphífingar og dýfur.

Skólarnir sem keppa til úrslita auk Hvolsskóla og Vallaskóla: Fellaskóli Fellabæ, Grundaskóli á Akranesi, Grunnskólinn á Þingeyri, Heiðarskóli og Holtaskóli úr Reykjanesbæ, Lágafellsskóli í Mosfellsbæ, Síðuskóli á Akureyri, Seljaskóli í Reykjavík, Valhúsaskóli á Seltjarnarnesi, og Varmahlíðarskóli.

Það verður gríðarleg spenna í Laugardalshöll á föstudag. Frítt er inn í Laugardalshöll og eru allir velkomnir. Landsbankinn veitir nemendafélögum þriggja efstu skólanna vegleg peningaverðlaun. Keppendur sigurliðsins fá einnig vegleg verðlaun. Þá stendur bankinn einnig fyrir Instagram-myndakeppni og geta áhorfendur sent inn myndir merktar #skolahreysti. Bestu og frumlegustu myndirnar verða verðlaunaðar.

RÚV sýnir beint frá keppninni og hefst útsending kl. 19:40.


Lið Vallaskóla.

Fyrri greinAfmælishelgi á 800Bar
Næsta greinFlugdagur og flugsýning á laugardag