Mílan hélt uppteknum hætti og tapaði fyrir ÍBV-U í 1. deild karla í handbolta þegar liðin mættust í Vallaskóla í kvöld. Lokatölur urðu 27-34.
Mílan situr nú á botni deildarinnar með 3 stig en liðið hefur aðeins unnið einn leik í vetur og gert eitt jafntefli.
Stjörnum prýtt ungmennalið ÍBV-U skartaði meðal annars fyrrum atvinnumönnunum Róberti Hostert og Agnari Smára Jónssyni, en þeir voru einmitt markahæstir hjá ÍBV-U í kvöld með 10 og 9 mörk. Gestirnir höfðu undirtökin lengst af og leiddu í hálfleik, 12-15.
ÍBV fékk gult spjald á 4. mínútu leiksins fyrir að vera með leikmann skráðan á röngu treyjunúmeri á leikskýrslu. Tveimur mínútum síðar fékk Mílan einnig gult fyrir sambærilegt tilvik, leikmann skráðan á röngu treyjunúmeri á skýrslu. Samkvæmt heimildum sunnlenska.is hyggst hvorugt liðið leggja fram kæru vegna þessara misbresta í framkvæmd leiksins.
Sævar Ingi Eiðsson var markahæstur hjá Mílunni í kvöld með 8 mörk, Gunnar Ingi Jónsson, Atli Kristinsson, Trausti Magnússon og Páll Bergsson skoruðu allir 3 mörk, Hlynur Bogason 2 og Ketill Hauksson, Eyþór Jónsson, Gunnar Páll Júlíusson, Gísli Olgeirsson og Ómar Vignir Helgason skoruðu allir 1 mark.