Hólmfríður Magnúsdóttir var besti maður vallarins þegar Ísland lagði Hvíta-Rússland 2-0 í undankeppni EM á Laugardalsvellinum í kvöld.
Hvít-Rússarnir spiluðu stífan varnarleik og íslenska liðinu gekk illa að brjóta gestina á bak aftur. Það var ekki fyrr en á 30. mínútu að Ísland komst yfir með góðu marki frá Hólmfríði og staðan var 1-0 í hálfleik. Hólmfríður var svo hársbreidd frá því að bæta öðru marki við þegar hún átti skalla rétt framhjá á 70. mínútu en þremur mínútum síðar innsiglaði Dagný Brynjarsdóttir 2-0 sigur Íslands.
„Þetta tók svolítinn tíma en við vissum það fyrir leikinn að það þyrfti þolinmæði í þetta og að þær myndu liggja lágt niðri á vellinum. Það var erfitt að opna þær en mér fannst við halda boltanum vel og þegar markið kom þá léttist þetta aðeins. Hvít-Rússarnir börðust samt vel allan tímann þannig að þetta varð aldrei auðvelt,“ sagði Hólmfríður í samtali við sunnlenska.is eftir leik. Hún var ánægð með markið sem hún skoraði, en líka stemmninguna á vellinum, sem var mjög góð.
„Ég er alltaf ánægð með að skora fyrir landsliðið, það er alltaf skemmtilegt. Ég er líka rosalega ánægð með Tólfuna og alla sem mættu á leikinn og héldu stemmningunni uppi frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu. Þetta á að vera svona í hverjum leik og það er alltaf markmiðið okkar að fá fleiri á völlinn. Í dag var þetta frábært.“
Hólmfríður spilar í norsku úrvalsdeildinni með Avaldsnes en liðið er í 2. sæti í deildinni og komið í úrslitaleikinn í bikarkeppninni.
„Ég fer beint út til Noregs á morgun og næsti leikur er á laugardaginn. Tímabilið er ekki búið hjá okkur fyrr en í nóvember þannig að það er svolítið langt eftir, en það er gott fyrir landsliðið. Við eigum tvo mikilvæga útileiki framundan þar í október, gegn Makedóníu og Slóveníu,“ segir Hólmfríður og bætir við að hún sé ánægð með lífið í Noregi.
„Já, lífið er frábært í Noregi. Ég er að spila mitt fjórða tímabil og verð þarna áfram á næsta tímabili. Ég er ánægð þar sem ég er enda er ég búin að koma mér vel fyrir þarna og líður mjög vel. Það skiptir miklu máli,“ sagði Hólmfríður að lokum.