ÍBV stakk af í lokin

Sölvi Svavarsson var sterkur í vörn og sókn. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Karlalið Selfoss sigldi til Vestmannaeyja í dag og lék gegn ÍBV í úrvalsdeildinni í handbolta. Eyjamenn reyndust sterkari í dag og unnu öruggan sigur.

Selfyssingar voru sterkari í fyrri hálfleik, þeir komust í 3-7 og leiddu 11-12 í hálfleik. Selfoss náði aftur fjögurra marka forskoti í upphafi seinni hálfleiks en þá tóku Eyjamenn við sér og jöfnuðu 20-20 um miðjan seinni hálfleikinn.

Vestmannaeyingarnir litu ekki í baksýnisspegilinn eftir þetta. Þeir náðu þriggja marka forskoti og stungu svo hreinlega af á lokamínútunum þar sem varnarleikur Selfoss var hriplekur og lokatölur leiksins urðu 33-25.

Einar Sverrisson var markahæstur Selfyssinga með 6/3 mörk, Sölvi Svavarsson skoraði 4, Tryggvi Sigurberg Traustason 4/1, Richard Sæþór Sigurðsson og Atli Ævar Ingólfsson 3, Hannes Höskuldsson 2 og þeir Hans Jörgen Ólafsson, Sverrir Pálsson og Sæþór Atlason skoruðu allir 1 mark.

Vilius Rasimas varði 8/1 skot í marki Selfoss og var með 26% markvörslu og Alexander Hrafnkelsson varði 1 skot og var með 10% markvörslu.

Selfoss er á botni deildarinnar með 2 stig en ÍBV er í 4. sætinu með 11 stig.

Fyrri greinTreyja Ronaldo seldist á eina milljón króna
Næsta greinBónusvinningur á Bakkann