Selfyssingar þurfa að vinna tvo síðustu leiki sína í úrvalsdeild karla í handbolta og treysta á hagstæð úrslit í öðrum leikjum ætli þeir að halda sæti sínu í deildinni.
Selfoss tapaði í kvöld fyrir ÍBV í Suðurlandsslag, 20-29. Jafnræði var með liðunum framan af leik en ÍBV komu sér upp sex marka forskoti undir lok fyrri hálfleiks og leiddu 11-17 í leikhléi. Selfyssingar áttu ekki endurkomu auðið í seinni hálfleiknum og ÍBV vann sannfærandi sigur.
Richard Sæþór Sigurðsson og Valdimar Örn Ingvarsson skoruðu 3 mörk fyrir Selfoss, Einar Sverrisson 3/1, Jason Dagur Þórisson, Hans Jörgen Ólafsson og Sölvi Svavarsson 2 og þeir Sæþór Atlason, Gunnar Kári Bragason, Hannes Höskuldsosn, Tryggvi Sigurberg Traustason og Álvaro Mallols skoruðu allir 1 mark.
Vilius Rasimas varði 6 skot í marki Selfoss og Jón Þórarinn Þorsteinsson varði 5. Sverrir Pálsson var frábær í vörninni hjá Selfyssingum með 12 brotin fríköst og 2 stolna bolta.
Þegar tvær umferðir eru eftir í deildinni eru Selfyssingar á botninum með 8 stig og þar fyrir ofan eru Víkingur með 10 stig og HK með 11 stig. Selfoss þarf að sigra Hauka og Gróttu í síðustu tveimur umferðunum og treysta á að HK og Víkingur tapi sínum leikjum.