ÍBV vann Suðurlandsslaginn

Magdalena Reimus og Sif Atladóttir á Hásteinsvelli í dag. Ljósmynd: fotbolti.net/Hafliði Breiðfjörð

Selfoss varð af mikilvægum stigum í 1. deild kvenna í knattspyrnu í dag þegar liðið tapaði gegn ÍBV í botnslag á útivelli.

Fyrri hálfleikur var frekar bragðdaufur, bæði lið fengu færi en Eyjakonur voru meira ógnandi. Staðan var 0-0 í hálfleik.

Selfoss byrjaði seinni hálfleikinn af miklum krafti og gerðu sig líklegar til þess að skora. Þær fengu hins vegar mark í andlitið á 60. mínútu þegar Thelma Óðinsdóttir skoraði með góðu skoti úr teignum og kom ÍBV í 1-0.

Þær reyndust lokatölur leiksins. Eftir markið tók ÍBV leikinn í sínar hendur og Selfyssingar voru aldrei nálægt því að jafna.

Með sigrinum minnkar ÍBV bilið í Selfoss í eitt stig. ÍBV hefur 7 stig í fallsæti en Selfoss er einu sæti ofar með 8 stig. En það er stutt á milli í þessu. Þær vínrauðu eiga mikilvægan leik fyrir höndum næstkomandi fimmtudag þegar Grótta kemur í heimsókn á Selfoss. Með sigri jafnar Selfoss Gróttu að stigum í efri hluta deildarinnar.

Fyrri greinStálu þeir öllum stelpunum?
Næsta greinKFR skoraði níu – Fyrsti sigur Stokkseyrar