Ingi Rafn búinn að skora í öllum deildum Íslandsmótsins

Ingi Rafn fagnar á Stokkseyrarvelli í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Stokkseyri vann sanngjarnan 4-3 sigur á Afríku í 5. deild karla í knattspyrnu á Stokkseyrarvelli í kvöld.

Sindri Þór Arnarson kom Stokkseyri yfir strax í upphafi, áður en dómarinn fækkaði um einn leikmann í hvoru liði eftir rúmar tíu mínútur. Leikmaður Afríku fékk tvö gul spjöld fyrir að pressa í óbeinni aukaspyrnu og í kjölfarið var Þórhallur Aron Másson rekinn útaf fyrir stympingar.

Á 17. mínútu kom Ingi Rafn Ingibergsson Stokkseyri í 2-0 en markið var sögulegt því Ingi Rafn varð í kvöld annar leikmaðurinn til þess að skora mark í öllum sex deildum Íslandsmóts karla. Sá fyrsti til að afreka það var Arilíus Marteinsson sem auðvitað var á sínum stað í byrjunarliði Stokkseyrar í kvöld. Meira um það hér að neðan.

Hafþór Berg Ríkharðsson skoraði svo þriðja mark Stokkseyrar á 27. mínútu og staðan var 3-0 í hálfleik.

Stokkseyringar slökuðu heldur betur á klónni í seinni hálfleiknum og hleyptu Afríku aftur inn í leikinn með tveimur mörkum. Hafþór Berg jók forskotið aftur í 4-2 á 72. mínútu en fjórum mínútum síðar minnkaði Afríka muninn í 4-3 með marki úr vítaspyrnu sem Örvar Hugason, markvörður Stokkseyrar, réð ekki við.

Stokkseyringar eru áfram í 7. sæti B-riðilsins, nú með 13 stig þegar tvær umferðir eru eftir. Afríka er í neðsta sæti án stiga.

115 mörk fyrir sex félög
Ingi Rafn skoraði 2 mörk fyrir ÍBV í efstu deild árið 2006, hann á 22 mörk í B-deildinni fyrir Selfoss og ÍBV, 13 mörk í C-deildinni fyrir Selfoss, 14 mörk í D-deild fyrir Ægi og Frey, 28 mörk í E-deildinni fyrir Árborg og núna 1 mark fyrir Stokkseyri í F-deildinni. Samtals eru þetta 115 mörk í 461 KSÍ-leik að meðtöldum 5 mörkum í bikarkeppninni fyrir Selfoss og ÍBV og 30 mörkum í deildarbikarnum fyrir sömu félög.

Fyrri greinÁgústa hlaut lista- og menningarverðlaun Ölfuss 2024
Næsta greinSafnaði góðri upphæð í Gugguhlaupinu