Ingi Rafn í Árborg

Ingi Rafn Ingibergsson. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Knattspyrnumaðurinn Ingi Rafn Ingibergsson hefur haft vistaskipti frá Selfossi yfir í Knattspyrnufélag Árborgar.

Selfyssingar kveðja Inga Rafn á Facebooksíðu sinni í dag og þar segir að vart þurfi að kynna Inga fyrir knattspyrnuáhugamönnum á Selfossi en hann hann hefur spilað með liðinu í þrettán tímabil eftir að hann sitt lék sína fyrstu leiki á Selfossi árið 2002. Síðan þá hefur hann komið við hjá þremur liðum; ÍBV, Ægi og í fyrra lék hann 5 leiki með Árborg á láni frá Selfoss. Hann hefur nú skipt yfir í 4. deildarliðið og verður væntanlega í leikmannahópi Árborgar í kvöld þegar liðið mætir Vængjum Júpíters í deildarbikarnum á Selfossvelli.

„Ingi hefur verið frábær þjónn fyrir félagið en hann á um 320 leiki spilaða fyrir Selfoss. Í þeim hefur hann skorað vel yfir 50 mörk. Hann hefur leikið með liðinu í 2. deild, 1. deild og úrvalsdeild. Við þökkum Inga kærlega fyrir árin í vínrauðu treyjunni. Minningarnar eru ótalmargar bæði súrar og sætar. Gangi þér vel í nýju liði,“ segja Selfyssingar í tilkynningu sinni.

Fyrri grein„Gleðiefni að málefni barna séu sett í skýran forgang“
Næsta greinÞór tapaði baráttunni um Suðurstrandarveginn