Taekwondokonan Ingibjörg Erla Grétarsdóttir, Umf. Selfoss, vann til silfurverðlauna um helgina á Serbia Open, gríðarsterku móti í Serbíu.
Þrjátíu aðrir keppendur voru í flokki Ingibjargar þannig að það var við ramman reip að draga. Hún var skráð til keppni fyrir Team Tveita frá Noregi sem er eitt af systurfélögum taekwondodeildar Selfoss í gegnum Team Nordic. Ástæða þess að Ingibjörg keppir undir merkjum norska félagsins er sú að það kostar hálfa milljón króna að fá leyfi fyrir þjálfara á G-klassa mótum og taekwondodeildin á Selfossi hefur einfaldlega ekki efni á því.
Í fyrsta bardaga sínum keppti Ingibjörg á móti grískum keppanda sem hún vann 5-1. Næsti mótherji var frá Ungverjalandi en Ingibjörg vann hana einnig 5-1. Í þriðja bardaganum sýndi hún klærnar á móti rússneskri stelpu og vann 10-4. Í næsta bardaga varð keppandi frá Hvíta-Rússlandi að gefa bardagann vegna meiðsla og þar með var Ingibjörg komin í úrslitabardagann.
Þar var andstæðingurinn frá Króatíu og hafði sú betur og vann Ingibjörgu 13-1. Þrátt fyrir tapið í úrslitunum er þetta frábær árangur hjá Ingibjörgu en þetta er í fyrsta sinn sem Íslendingur nær á verðlaunapall á G-klassa móti, móti í hæsta styrkleikaflokki.