Ingimar Helgi Finnsson hefur verið ráðinn spilandi aðstoðarþjálfari hjá 4. deildarliði Knattspyrnufélags Árborgar.
Ingimar er reynslumikill leikmaður, sem hefur spilað hátt í 200 leiki á ferlinum fyrir Árborg og Ægi og binda Árborgarar miklar vonir við að hann geti miðlað af reynslu sinni og herkænsku til yngri leikmanna.
Ingimar kemur inn í öflugt þjálfarateymi hjá félaginu en aðalþjálfari Árborgar er Tomasz Luba.
„Það er mikill heiður fyrir mig að Tomasz og Sigurður formaður hafi leitað til mín, og stökk ég á tækifærið eftir léttan umhugsunarfrest. Ég var ekki tilbúinn að hætta að spila og var það lykilforsenda í þessari ákvörðun. Aldurinn er aðeins farinn að segja til sín en vonandi get ég hjálpað liðinu innan sem utan vallar í sumar,“ sagði Ingimar við undirritun samningsins, sem að sjálfsögðu fór fram í flugskýli á Selfossflugvelli.