Ingimundur Sigurmundsson varði titil sinn sem Atskákmeistari Skákfélags Selfoss og nágrenis (SSON) á móti sem lauk fyrir skömmu.
Fyrir síðustu umferðirnar var ljóst að einungis tveir gátu ógnað sigri Ingimundar á mótinu, bróðir hans Úlfhéðinn og Sigurður H. Jónsson. Ingimundur sýndi af sér feikna öryggi í lokaumferðunum og landaði öruggum sigri. Hann heldur nú á tveimur helstu titlum SSON og hefði getað bætt þeim þriðja við sl. miðvikudagskvöld þegar hraðskákmót félagsins fór fram.
Það tókst honum ekki því Björgvin S.Guðmundsson bar sigur úr bítum á því móti þar sem hann sigraði hraðskákmeistara síðasta árs, Magnús Matthíasson, í heimsendaskák að afloknum tveimur skákum í bráðabana.
Björgvin vann fyrri skák bráðabanans en Magnús þá síðari og var þá gripið til svokallaðrar heimsendaskákar þar sem dregið var um lit, Björgvin dró svartan og fékk 5 mín á klukkuna en Magnús hafði hvítt og sex mínútur. Björgvini dugði jafntefli en gerði gott betur og vann skákina örugglega og tryggði sér þar með titilinn.
Björgvin og Magnús voru með 10 vinninga í mótinu en Ingimundur varð þriðji með 8 vinninga.