Ingó Tóta í KFS

Knattspyrnumaðurinn Ingólfur Þórarinsson hefur gengið til liðs við 3. deildarlið KFS í Vestmannaeyjum.

Ingólfur var síðastliðið sumar spilandi þjálfari hjá Hamri í Hveragerði í 3. deildinni en Hvergerðingar féllu niður í 4. deild á síðasta tímabili.

Ingólfur er uppalinn á Selfossi en hann fór meðal annars með liðinu upp úr 2. deild í Pepsi-deildina á sínum tíma. Þá hefur Ingólfur einnig leikið með Víkingi R. og Fram á ferli sínum.

KFS mun leika í 3. deildinni í sumar en liðið komst óvænt upp síðastliðið haust þegar Grundarfjörður ákvað að draga sig úr keppni.

Fyrsti leikur Ingólfs með KFS verður væntanlega gegn Stokkseyri í Lengjubikarnum á Selfossvelli á sunnudaginn.

Fótbolti.net greinir frá þessu.

Fyrri greinSjóvá gefur Hafnarnesi Björgvinsbelti
Næsta greinStofnar minningarsjóð til styrktar tónlistarfólki