Selfyssingurinn Ingólfur Snorrason var í gær ráðinn landsliðsþjálfari í kumite hjá Karatesambandi Íslands. Kumite er bardagahluti karateíþróttarinnar.
Undirritunin átti sér stað þegar þinghlé var gert á Karateþingi sem fór fram í Íþróttamiðstöð ÍSÍ.
Ingólf þarf vart að kynna fyrir karatefólki, enda einn sigursælasti keppandi landsins. Ingólfur vann til tuttugu Íslandsmeistaratitla, ýmist í +80kg flokki eða opnum flokki í kumite auk meistaratitla í liðkeppni. Hann var fastamaður í landsliði Íslands í kumite til fjöldra ára, keppti á fjölda alþjóðlegra móta, Norðurlanda-, Evrópu- og heimsmeistaramót, með góðum árangri.