Miðjumaðurinn Ingólfur Þórarinsson hefur skrifað undir tveggja ára samning við knattspyrnudeild Umf. Selfoss. Selfyssingar eru með danskan miðvörð til reynslu þessa dagana.
Ingólfur hefur leikið yfir 100 leiki með Selfyssingum á síðustu árum en hann hefur einnig verið í herbúðum Fram og Víkings. Ingólfur kom aftur á Selfoss frá Víkingum undir lok síðasta sumars og lék 6 leiki í 1. deildinni.
Annars er það að frétta að danski leikmaðurinn Allan Arenfeldt Olesen er til reynslu hjá Selfyssingum þessa dagana og mun hann leika æfingaleik með liðinu gegn Keflavík á morgun.
Olesen er 29 ára gamall, reynslumikill leikmaður úr dönsku og norsku úrvalsdeildinni. Hann spilaði með finnska liðinu IFK Mariehamn á síðasta keppnistímabili og á að baki landsleiki með yngri landsliðum Danmerkur, m.a. 15 U21 árs leiki.