ÍR-ingar skrefi á undan

Tykei Greene. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss heimsótti ÍR í fyrsta leik liðanna í 8-liða úrslitum 1. deildar karla í körfubolta í kvöld. Heimamennirnir reyndust sterkari á parketinu í Skógarselinu og sigruðu 100-87.

ÍR-ingar skoruðu fyrstu sex stig kvöldsins og voru fljótlega komnir í 17-8. Staðan eftir 1. leikhluta var 31-19. Selfyssingar bættu sóknarleikinn í 2. leikhluta en vörnin lak áfram og staðan í hálfleik var 61-48. Jafnræði var með liðunum í seinni hálfleik en Selfyssingum gekk ekkert að brúa bilið sem hélst svipað allan seinni hálfleikinn.

Tykei Greene var stigahæstur Selfyssinga með 34 stig og 8 fráköst, Birkir Hrafn Eyþórsson skoraði 20 stig og tók 7 fráköst, Ísar Freyr Jónasson skoraði 14 og Arnór Bjarki Eyþórsson skoraði 12 stig og tók 7 fráköst.

Liðin mætast næst á mánudaginn í Gjánni á Selfossi en það lið sem fyrr vinnur þrjá leiki kemst áfram í undanúrslitin.

Fyrri greinHitti Hauk Morthens í plötubúð
Næsta greinHamar tapaði í framlengingu