Íþróttabandalag Vestmannaeyja sigraði á 34. Ragnarsmóti karla í handbolta sem lauk á Selfossi í dag. ÍBV vann Aftureldingu örugglega í úrslitaleiknum, 35-22.
Selfoss sigraði Fram í leiknum um 3. sætið. Fram leiddi 17-19 í leikhléi en í seinni hálfleiknum stungu Selfyssingar af og lokatölur urðu 37-31. Ísak Gústafsson var markahæstur Selfyssinga með 7 mörk, Einar Sverrisson skoraði 6, Guðmundur Hólmar Helgason 4, Sigurður Snær Sigurjónsson, Atli Ævar Ingólfsson, Hannes Höskuldsson og Sæþór Atlason 3, Tryggvi Sigurberg Traustason, Vilhelm Freyr Steindórsson og Richard Sæþór Sigurðsson 2 og Elvar Elí Hallgrímsson 1.
Þá vann Hörður KA í leiknum um 5. sætið, 34-31 en staðan í hálfleik var 15-16.
Í mótslok er venjan að verðlauna þá leikmenn sem skarað hafa framúr. Ísak Gústafsson, leikmaður Selfoss, var valinn leikmaður mótsins en hann var einnig markahæstur með 29 mörk. Árni Bragi Eyjólfsson úr Aftureldingu var valinn sóknarmaðurmótsins og Eyjamennirnir Petar Jokanovic og Arnór Viðarsson voru besti markmaðurinn og varnarmaðurinn.
Nú tekur við Ragnarsmót kvenna og hefst það í Set-höllinni á Selfossi þriðjudaginn 30. ágúst.