Taekwondomaðurinn Ísak Máni Stefánsson, 16 ára frá Selfossi, tók svartbeltispróf 1. dan um síðustu helgi og náði því með glans.
Ísak Máni hefur æft með taekwondodeild Umf. Selfoss síðan 2008. Hann hefur einnig tekið þátt í að þjálfa yngri iðkendur deildarinnar. Ísak hefur verið meiddur á hné síðastliðið ár og fór meðal annars í tvær aðgerðir vegna þess, þá seinni síðasta vor. Félagar hans úr taekwondodeildinni þreyttu sín svartbeltispróf í júní en Ísak Máni gat ekki tekið próf þá vegna meiðslanna.
Ísak hefur náð ótrúlega góðum bata með hjálp sjúkraþjálfara síns, Sigríðar Evu Guðmundsdóttur. Honum stóð í kjölfarið til boða að mæta í sjúkrapróf hjá meistara sínum Sigursteini Snorrasyni, 6. dan.
Í taekwondo fara beltapróf yfirleitt þannig fram að nokkrir saman í hóp þreyta prófið, en í þessu prófi þurfti Ísak Máni að standa einn frammi fyrir prófdómurum sínum og framkvæma það sem fyrir hann var lagt. Svartbeltispróf fara þannig fram að iðkendur þurfa að kunna allt það sem þeir hafa lært frá því þeir tóku fyrsta beltið (gul rönd) og geta því þessi próf verið ansi löng og strembin. Þau krefjast bæði úthalds og einbeitingar og tók prófið að þessu sinni um 2 klukkustundir. Það var erfitt fyrir Ísak Mána að standa einn þar sem allra augu beindust aðeins að honum og minnstu mistök hefðu getað orðið dýr.
Það er skemmst frá því að segja að Ísak Máni stóð sig frábærlega og náði prófinu með glans og hefur því taekwondodeild Umf. Selfoss eignast nýjan svartbelting.