Selfyssingurinn Ísak Gústafsson mun ganga til liðs við handknattleiksdeild Vals fyrir næsta keppnistímabil. Valsmenn greina frá þessu á Facebooksíðu sinni í dag.
Ísak, sem er tvítugur, er ein efnilegasta örvhenta skytta landsins en hann er fastamaður í u21-árs landsliði Íslands og hefur leikið afar vel með Selfyssingum í vetur og skorað 96 mörk í Olísdeildinni.
Í tilkynningu Vals segir að Ísak verði frábær viðbót við Valsliðið, sem ætlar sér áfram að vera í fremstu röð á öllum vígstöðum á komandi árum.