Ægir og KFR töpuðu sínum leikjum í B-deild Lengjubikars karla í knattspyrnu í dag. Í C-deildinni vann Hamar Ísbjörninn en Árborg tapaði fyrir Kríu.
Hamar og Ísbjörninn mættust á Selfossvelli síðdegis í dag. Hamarsmenn voru mun sprækari í leiknum og komust í 2-0 á fyrstu tólf mínútunum með mörkum frá Örlaugi Magnússyni og Hafsteini Þór Auðunssyni. Ísbjörninn minnkaði muninn á 36. mínútu en Hákon Þór Harðarson skoraði fyrir Hamar á 43. mínútu og tryggði Hvergerðingum 3-1 forystu í hálfleik. Daníel Rögnvaldsson innsiglaði svo 4-1 sigur Hamars með skoti af stuttu færi á 75. mínútu. Hvergerðingar eru ósigraðir í riðli-3 með sex stig.
Árborg sótti Kríu heim á Vivaldivöllinn á Seltjarnarnesi. Kría leiddi 1-0 í hálfleik og bættu svo við tveimur mörkum um miðjan seinni hálfleikinn. Lokatölur 3-0 en Árborg heldur þrátt fyrir það toppsætinu í riðlinum um stund, en Stokkseyringar geta tyllt sér í það á morgun.
Í B-deildinni mætti KFR Þrótti Vogum í Reykjaneshöllinni. Þróttur komst í 2-0 með mörkum úr tveimur vítaspyrnum í fyrri hálfleik en SIgurður Skúli Benediktsson minnkaði muninn fyrir KFR á 72. mínútu og þar við sat. Rangæingar voru þá orðnir tveimur leikmönnum fleiri. KFR er með 3 stig í 5. sæti riðils-3 eftir þrjá leiki.
Þá mættust ÍH og Ægir á Leiknisvellinum og þar urðu lokatölur 1-0 fyrir ÍH. Ægir er í 3. sæti síns riðils með 4 stig að loknum þremur leikjum.
Knattspyrnuunnendur geta séð tvo leiki á JÁVERK-vellinum á Selfossi á morgun, sunnudag. Kl. 12:00 mætast Selfoss og Fjarðabyggð í A-deild karla og kl. 15:00 mætast Stokkseyri og Vatnaliljurnar í C-deildinni.