U19 ára lið Íslands í knattspyrnu tapaði fyrir Tyrkjum í dag, 2-1, í lokaleik riðlakeppninnar í Wales.
Liverpoolmaðurinn Kristján Gauti Emilsson kom Íslendingum yfir á 48. mínútu en tíu mínútum síðar jafnaði fyrirliði Tyrkjanna, Muhammet Demir. Sigurmark Tyrkjanna kom á 94. mínútu og þar var að verki Hasan Ahmet Sari, leikmaður Trabsonspor. Dómari leiksins flautaði til leiksloka strax að því loknu. Íslendingar léku manni færri síðasta hálftímann eftir að Tómasi Guðmundssyni hafði verið vísað af velli.
Selfyssingarnir Guðmundur Þórarinsson og Jón Daði Böðvarsson voru báðir í byrjunarliði Íslands. Guðmundur lék allan leikinn og uppskar áminningu á 40. mínútu. Jóni Daða var skipt af velli á 67. mínútu.
Tyrkir fengu þar með 7 stig í riðlinum, Wales 5, Ísland 3 og Kasakstan eitt stig. Tyrkland og Wales eru komin í milliriðil. Tvö lið úr þriðja sæti undanriðlanna þrettán komast áfram en ljóst er að Ísland verður ekki annað þeirra.