Íslandsleikarnir á Selfossi um helgina

Ljósmynd/Allir með

Íslandsleikarnir verða haldnir á Selfossi næstkomandi laugardag og sunnudag, 29. og 30. mars. Íslandsleikarnir er íþróttahelgi fyrir einstaklinga sem hafa ekki fundið sig í hefðbundnu íþróttastarfi og/eða eru með stuðningsþarfir.

Skráning á mótið er ennþá í fullum gangi en hægt er að skrá sig til leiks hér.

Á leikunum verða fimm íþróttagreinar í boði; fótbolti, körfubolti, handbolti, fimleikar og frjálsar. Hver íþróttagrein er með opna æfingu og mót yfir helgina þar sem öllum er frjálst að mæta og taka þátt. Á þessum æfingum eru margir þjálfarar og markmiðið er að allir fái tækifæri til að taka þátt á sínum forsendum.

Það verður því nóg um að vera á Selfossi um helgina en hluti þátttakenda mun gista í Vallaskóla og verður ýmislegt annað í boði en íþróttir. Sundlaugarpartý, pizzuveisla og óvæntir gestir verða á ferðinni.

Einstaklingar með stuðningþarfir og foreldrar fatlaðra barna eru hvattir til að kynna sér dagskrána og taka þátt í þessum skemtilega íþróttaviðburði á Selfossi.

Fyrri greinFóstbræður og Karlakór Selfoss í Skálholtskirkju
Næsta greinAgla vann tvö gull