Íslandsmeistarar Selfoss unnu öruggan sigur á Fjölni í 11. umferð Íslandsmóts karla í handbolta. Selfoss hefur 15 stig í 3. sæti deildarinnar nú þegar mótið er hálfnað.
Jafnt var á öllum tölum í upphafi leiks, upp í 5-5 þegar 10 mínútur voru liðnar. Selfyssingar náðu þá þriggja marka forskoti, og munurinn var orðinn sex mörk í leikhléi, 12-18, en Selfoss skoraði síðustu tvö mörkin í fyrri hálfleik.
Selfoss náði sjö marka forskoti í upphafi seinni hálfleiks og Fjölnismenn náðu aldrei að ógna Íslandsmeisturunum. Munurinn varð aldrei minni en fimm mörk, 20-25, um miðjan seinni hálfleikinn en í kjölfarið átti Selfoss frábæran kafla og munurinn fór í ellefu mörk, 24-35. Fjölnir skoraði hins vegar tvö síðustu mörkin í leiknum og lokatölur urðu 26-35.
Hergeir Grímsson átti stórleik fyrir Selfoss en hann var markahæstur með 10/3 mörk og sendi 7 stoðsendingar og var öflugur í vörninni með 5 brotin fríköst, eins og Tryggvi Þórisson. Guðni Ingvarsson og Haukur Þrastarson skoruðu báðir 5 mörk og Haukur sendi 7 stoðsendingar að auki, Atli Ævar Ingólfsson 4, Magnús Öder Einarsson og Alexander Egan skoruðu 3 mörk, Daníel Karl Gunnarsson og Reynir Freyr Sveinsson 2 og Guðjón Baldur Ómarsson 1.
Einar Baldvin Baldvinsson varði 6/1 skot í marki Selfoss og var með 33% markvörslu og Sölvi Ólafsson varði 5 skot og var með 26% markvörslu.