Um 90 keppendur tóku þátt í Vormóti HSK í frjálsum sem haldið var á frjálsíþróttavellinum á Selfossi í gærkvöldi. Mótið markar upphafið að utanhússkeppnistímabili ársins hjá mörgu frjálsíþróttafólki.
Ágætur árangur náðist í mörgum greinum, en vindur var of mikill allt kvöldið í stökkum og spretthlaupum og því telst árangur í þeim greinum ekki löglegur.
Eitt Íslandsmet var sett á mótinu en það var FH-ingurinn Arndís Diljá Óskarsdóttir sem bætti met Ásgerðar Jönu Ágústsdóttur í spjótkasti (500g) í flokki 16-17 ára stúlkna. Hún kastaði lengst 45,93 metra og bætti þar með átta ára gamla met um 49 sentímetra.
Álfrún Diljá Kristínardóttir úr Umf. Selfoss setti samtals sex HSK met í sleggjukasti í 15 ára flokki og 16-17 ára flokki með 3 kg sleggju. Álfrún bætti metið í kastseríu sinni þrisvar í báðum flokkum, kastaði 41,62 m, 41,96 m og 43,93 m í lokakastinu. Álfrún átti sjálf metin í þessum flokkum, en hún kastaði 3 kg sleggjunni 41,12 metra á síðasta ári.
Heildarúrslit frá mótinu eru á heimasíðu FRÍ og myndir eru á www.hsk.is.