Íslandsmótið í hestaíþróttum verður haldið á Selfossi næsta sumar af hestamannafélaginu Sleipni í samvinnu við Landsamband hestamanna.
Þetta var ákveðið á landsþingi hestamanna á dögunum. „Sú staða kom óvænt upp á þinginu að Sleipni bauðst að halda mótið og var það ákveðið að láta slag standa,“ segir Þórdís Ólöf Viðarsdóttir, formaður Sleipnis í samtali við Sunnlenska.
Hún segir stjórnarmenn mjög ánægða að fá mótið á Selfoss og þetta hafi mjög jákvæð áhrif á hestaíþróttina á svæðinu sem og upplyfting fyrir bæjarfélagið að fá slíkan íþróttaviðburð í bæinn. Þórdís segir að vegna þessa mótshalds þurfi að gera bragarbót á keppnisaðstöðu félagsins enda líkur á fjölmennu móti miðað við reynsluna frá í sumar.
„Þetta setur jafnframt jákvæða pressu á okkur að ljúka við smíði reiðhallarinnar,“ segir hún, en reiðhöllin við Brávelli á Selfossi er fokheld sem stendur. Ekki er komin dagsetning á mótið.
Síðast var haldið Íslandsmót í hestaíþróttum á Selfossi sumarið 2006.