Bæjarráð Árborgar samþykkti að styðja Skáksamband Íslands við að halda Íslandsmótið í skák á Selfossi í vor.
Erindi skáksambandsins var tekið fyrir á bæjarráðsfundi í gær og var samþykkt að styrkja sambandið um hálfa milljón króna vegna verkefnisins en Skáksamband Íslands og Skákfélag Selfoss og nágrennis mun sjá um framkvæmd og umgjörð mótsins.
„Það er fagnaðarefni að Skáksamband Íslands skuli velja Íslandsmótinu stað á Selfossi og undirstrikar þann árangur sem hér hefur náðst í eflingu skákstarfs í sveitarfélaginu og þakka má öflugu starfi Skákfélags Selfoss og nágrennis,“ segir í bókun bæjarráðs.
Íslandsmótið í skák er hápunktur íslensks skáklífs ár hvert en í landsliðsflokki tefla tíu til tólf af sterkustu skákmönnum landsins. Mótið var síðast haldið í Árborg árið 1998 og enn í dag tala skákáhugamenn afar vel um mótið og þá faglegu umgjörð sem bæjarfélagið átti þátt í að skapa.
Stefnt er á að halda mótið dagana 28. apríl til 8. maí en dagsetningarnar hafa ekki verið staðfestar.