Fræðslu- og verkefnasjóður Ungmennafélags Íslands úthlutaði á dögunum 14,2 milljónum króna til 105 verkefna. Þetta er hæsta upphæð sem úthlutað hefur verið úr sjóðnum í einu. Alls bárust sjóðsstjórn 129 umsóknir.
Af þessum 14,2 milljónum fá félög og deildir á sambandssvæði HSK rúmlega 456 þúsund krónur.
Fimleikadeild Selfoss fær 200 þúsund krónur vegna dómaraprófa og fyrirlestra, júdódeild Selfoss fær 115 þúsund krónur vegna þjálfaramenntunar og námskeiða, handknattleiksdeild Selfoss fær 100 þúsund krónur vegna þjálfaranámskeiðs og Körfuknattleiksfélag Selfoss fær 41.300 krónur vegna dómaranámskeiðs.
Sjóðsstjórn úthlutar styrkjum úr Fræðslu- og verkefnasjóði tvisvar á ári og var þetta síðari úthlutun ársins. Fyrri úthlutun ársins var í vor og hljóðaði upp á 10,8 milljónir króna. Í þeirri úthlutun fékk HSK 1,5 milljón króna vegna Unglingalandsmótsins á Selfossi og fimleikadeild Selfoss fékk 360 þúsund krónur vegna námskeiða, fyrirlestra og dansverkefna.