Íþróttahreyfingin betur í stakk búin fyrir aðgerðir

Bryndís Lára og Rakel í pontu á þinginu. Ljósmynd: UMFÍ/Jón Aðalsteinn

„Íþróttahreyfingin vill tól og tæki sem nýtast í starfi en ekki enn eina skýrsluna,“ segir Rakel Magnúsdóttir, svæðisfulltrúi á Suðurlandi. Hún fór yfir starf svæðisstöðva íþróttahreyfingarinnar ásamt Bryndísi Láru Hrafnkelsdóttur, sem er hinn svæðisfulltrúinn á Suðurlandi á málþinginu Samfélagsnálgun forvarna mánaðarins sem fram fór í lok október.

Svæðisstöðvarnar voru settar á laggirnar í kjölfar þinga ÍSÍ og UMFÍ í fyrra með stuðningi mennta- og barnamálaráðuneytis til tveggja ára. Þær eru átta og tveir starfsmenn á hverri stöð. Verkefni þeirra er að framkvæma meðal annars greiningar í öllum landshlutum, greiningar sem taka til allra þátta íþróttastarfsins svo hægt verði að glöggva sig á stöðu mála. Þegar því lýkur verður sett fram aðgerðaráætlun fyrir hvern landshluta.

Mörg mál á borðinu
Fjölmörg mál eru á verkefnalista starfsfólks svæðisstöðvanna. Nú stendur yfir vinna við að greina stöðu íþróttamála eftir landssvæðum. Þegar liggur fyrir að samnefnari er í þeim áskorunum sem íþróttahreyfingin stendur frammi fyrir. Þegar allri þessari vinnu lýkur verður einfaldara að fara í samræmdar aðgerðir fyrir íþróttahreyfinguna, að sögn Rakelar.

„Framtíðarsýnin er að betri nýting náist á mannauði, að stuðningur við einstaka íþróttafélög verði meiri en nú, að flestir fái betri tækifæri til að stunda íþróttir á því sviði sem þau kjósa, hvort heldur til ánægju, heilsubótar eða með afreksárangur að markmiði,“ sagði hún og lagði áherslu á að mikill samhugur sé í starfsmannahópnum.

„Þetta er liðið okkar. Í stað þess að hugsa að við séum tveggja manna teymi þá erum við 16 manna lið sem brennur fyrir því að efla íþróttastarf. Við erum tilbúin í samvinnu og samstilltar aðgerðir,“ sagði hún og benti á að sérstakur Hvatasjóður sé viðbót við verkefnið. Íþróttahéruð, íþróttafélög, deildir og sérsambönd í samstarfi við félög eða deildir eða íþróttahéruð, geta þegar fram í sækir sótt um í sjóðnum.

Markmið sjóðsins er að styðja við verkefni sem auka þátttöku barna í íþróttum, fatlaðra barna, barna frá tekjulægri heimilum og barna með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn.

Meira um málþingið
Yfirskrift málþingsins var „Við kunnum þetta – Öryggi og vellíðan fyrir öll börn og ungmenni með samræmdum samfélagsaðgerðum frá þingi til þorps“.

Markmið þess var að fjalla um markvissar samfélagsaðgerðir, byggðar á bestu þekkingu, sem miða að öryggi og vellíðan barna og ungmenna.

Meðal annarra sem tóku til máls voru Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra, sem flutti opnunarávarp, Margrét Lilja Guðmundsdóttir frá Planet Youth og Sigrún Daníelsdóttir. Þá voru erindi frá fulltrúum ungmennaráðs Samfés, Embætti landlæknis, Heimili og skóla, Íslenskum æskulýðsrannsóknum og fleirum. Að lokum voru pallborðsumræður sem fulltrúar þingflokka tóku þátt í.

Streymt var frá málþinginu og er hægt að sjá það hér.

Fyrri greinKosningarnar
Næsta greinOpinn fundur um heilbrigðis- og öldrunarmál í Árborg