Ívar Guðmundsson á Kölska tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í götubílaflokki í torfæruakstri en hann sigraði bæði í 5. og 6. umferðum Íslandsmótsins, Greifatorfærunni, sem fram fóru á Akureyri um helgina.
Ívar tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í 5. umferðinni með öruggum sigri og hafði því 95 stig í heildarstigakeppni Íslandsmótsins eftir laugardaginn en Steingrímur Bjarnason, sem varð annar á laugardeginum, kom næstur með 74 stig.
Þrátt fyrir að titillinn væri í öruggri höfn gaf Ívar ekkert eftir í seinni keppni helgarinnar á sunnudeginum og sigraði aftur af miklu öryggi. Hann var valinn keppandi helgarinnar á Akureyri og hlaut hina eftirsóttu nafnbót, Greifinn, að keppni lokinni. Ívar hefur ekið gríðarlega vel í sumar og sigraði í öllum keppnunum nema einni.
Eðvald Orri Guðmundsson varð í 3. sæti í götubílaflokknum á laugardeginum og 4. sæti á sunnudeginum, en Pjakkurinn mætti nokkuð laskaður til leiks í seinni keppnina eftir veltur og fjör á laugardeginum. Orri varð þriðji á Íslandsmótinu þegar upp var staðið.
Í sérútbúna flokknum hafði Snorri Þór Árnason þegar tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn og lánaði hann því föður sínum og helsta styrktaraðila, Árna Steindóri Sveinssyni, bílinn. Árni Steindór náði 2. sætinu á laugardeginum, í sinni fyrstu keppni. Hann sló lítið af á sunnudeginum og náði þriðja sæti, meðal annars þrátt fyrir hrikalega veltu sem má sjá í efsta myndbandinu hér að neðan.
Selfyssingurinn Geir Evert Grímsson mætti til leiks í fyrsta skipti í sérútbúna flokknum í sumar á nýsmíðaðri Sleggjunni, sem þó er byggð á gömlum grunni. Hann varð fimmti á laugardeginum en kláraði sunnudaginn í 4. sæti.
Geir Evert var í mikilli baráttu við Hauk Einarsson frá Þorlákshöfn báða dagana og hafði betur í báðum keppnunum. Haukur varð í 6. sæti á laugardeginum en 5. sæti á sunnudeginum. Stigasöfnun helgarinnar skilaði Hauki hins vegar fjórða sætinu í heildarstigakeppninni á Íslandsmótinu.
Í flokki sérútbúinna götubíla varð Sigfús Gunnar Benediktsson í fjórða sæti báða dagana á Hlunknum.
Hér að neðan eru myndbönd frá Jakob Cecil Hafsteinssyni. Efst er veltan rosalega hjá Árna Steindóri og þar fyrir neðan samantektir frá hvorri keppninni fyrir sig.
Og hér fyrir neðan eru nokkrar ljósmyndir af sunnlensku keppendunum frá Dagnýju Gísladóttur í Þorlákshöfn.
Íslandsmeistarinn og Greifinn 2015, Ívar Guðmundsson á Kölska. sunnlenska.is/Dagný Gísladóttir
Orri drullumallar með lokuð augun á Pjakknum. sunnlenska.is/Dagný Gísladóttir
Árni Steindór í loftköstum á Kórdrengnum. sunnlenska.is/Dagný Gísladóttir
Geir Evert hamraði börðin með Sleggjunni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Haukur Einarsson á Taz. sunnlenska.is/Dagný Gísladóttir
Sigfús planar pollinn á Hlunknum. sunnlenska.is/Dagný Gísladóttir
Lokastaðan á Íslandsmótinu í torfæruakstri:
Sérútbúnir:
1. Snorri Þór Árnason, Kórdrengurinn, 75 stig
2. Magnús Sigurðsson, Kubbur, 52 stig
3. Guðlaugur Helgason, Galdra-Gulur, 48 stig
4. Haukur Einarsson, Taz, 34 stig
5. Elmar Jón Guðmundsson, Heimasætan, 32 stig
6. Svanur Örn Tómasson, Insane, 28 stig
7. Árni Steindór Sveinsson, Kórdrengurinn, 27 stig
8. Gestur J Ingólfsson, Draumurinn, 22 stig
9. Alexander Már Steinarsson, All-In, 21 stig
10. Valdimar Jón Sveinsson, Crash Hard, 19 stig
11. Geir Evert Grímsson, Sleggjan, 18 stig
12. Helgi Garðarsson, Spiderman, 15 stig
13.-15.Guðni Grímsson, Kubbur, 12 stig
13.-15. Sigurður Þór Jónsson, Katla túrbotröll, 12 stig.
13.-15.Kristmundur Dagsson, Tímaur, 12 stig
16.-17. Leó Viðar Björnsson, Iron Maiden, 10 stig
16.-17. Aron Ingi Svansson, Zombie, 10 stig.
18.-19. Þór Þormar Pálsson, Spiderman, 7 stig
18.-19. Ingólfur Guðvarðarson, Guttinn Reborn, 7 stig
20. Ólafur Bragi Jónsson, Tímaur, 6 stig
21.-24. Sigurjón Þór Þrastarson, Crash-Hard, 3 stig
21.-24. Guðbjörn Grímsson, Katla túrbotröll, 3 stig
21.-24. Grétar Óli Ingþórsson, Zeddan, 3 stig
21.-24. Einar Gunnlaugsson, Vembill, 3 stig
Sérútbúnir götubílar:
1. Bjarki Reynisson, Dýrið, 80 stig
2. Jón Vilberg Gunnarsson, Snáðinn 69 stig
3. Aron Ingi Svansson, Zombie, 66 stig
4.-5. Henning Ólafsson, Púmba Hlunkurinn, 20 stig
4.-5. Sigfús Gunnar Benediktsson, Hlunkurinn, 20 stig
Götubílar:
1. Ívar Guðmundsson, Kölski, 115 stig
2. Steingrímur Bjarnason, Strumpurinn, 89 stig
3. Eðvald Orri Guðmundsson, Pjakkurinn, 76 stig
4. Haukur Birgisson, Þeytingur, 40 stig
5. Snæbjörn Hauksson, Þeytingur, 12 stig.