"Eins og svo oft áður í vetur lentum við undir á köflum og erum að eyða óþarfa orku í að vinna upp forskot andstæðinganna. Þetta var samt aldrei í hættu í kvöld," sagði reynsluboltinn Ívar Grétarsson eftir sigur Selfyssinga á Aftureldingu í gærkvöldi.
Ívar er einn af reynslumestu leikmönnum liðsins þrátt fyrir að vera aðeins 26 ára gamall. „Ég hef lyft þessum bikar tvisvar áður og þetta er alltaf sama snilldin. Ég á það reyndar á restina af liðinu að ég hef lyft Evrópumeistaratitli,“ sagði Ívar glottandi en hann var í U18 ára landsliði Íslands sem varð Evrópumeistari árið 2003.
Handboltaskór Ívars hafa nokkrum sinnum farið upp í hillu og svo niður aftur en hann segir ekki koma til greina að hætta núna. „Nei, það er ekki hægt eftir svona frábæran vetur. Við tökum efstu deildina með trukki á næsta ári og stimplum okkur rækilega inn. Ég reikna með að vera á hlaupabrettinu í sumar og tálga mig niður,“ sagði Ívar kampakátur í samtali við sunnlenska.is