Skipalyftutorfæran, fyrsta umferðin á Íslandsmótinu í torfæruakstri, fór fram í Vestmannaeyjum á laugardaginn. Selfyssingurinn Ívar Guðmundsson sigraði í götubílaflokki.
Keppnin heppnaðist vel og voru tuttugu bílar skráðir til leiks. Selfyssingar eiga fjölmarga fulltrúa í torfærunni en þeir náðu ekki á verðlaunapall í Eyjum, nema Ívar, sem ók Kölska til sigurs í götubílaflokknum. Mesta athygli vakti endurkoma Árna Kópssonar í torfæruna en hann er aftur kominn undir stýri á Heimasætunni. Árni gerði sér lítið fyrir og sigraði með yfirburðum í sérútbúna flokknum auk þess að fá tilþrifaverðlaun keppninar.
Það var hörkukeppni í sérútbúna flokknum og lítill stigamunur á keppendum í 2. til 7. sæti. Af Sunnlendingunum varð Benedikt Sigfússon í 5. sæti á Hlunknum með 1.430 stig, þar á eftir kom Hafsteinn Þorvaldsson á Torfunni með 1.423 stig og Sigfús Benediktsson varð í 8. sæti á Hlunknum með 1.162 stig.
Jón Örn Ingileifsson varð tíundi á Dýrlingnum með 830 stig en hann féll úr keppni eftir þriðju braut þegar vélin í Dýrlingnum festist en Jón Örn hafði þá forystu í keppninni. Haukur Þorvaldsson var í jómfrúrferðinni á hinum glæsilega Jóker en var í vandræðum með stýrið í bílnum og varð ellefti með 720 stig.
Keppnin í götubílaflokknum var sömuleiðis spennandi en Ívar fékk 1.878 stig og næstur honum kom Jón Vilberg Gunnarsson með 1.833 stig. Róbert Agnarsson er kominn yfir í götubílaflokkinn en hann ók Silver Power Willisnum og varð í 5. sæti með 1.527 stig.
Staðan á Íslandsmótinu í torfæruakstri:
Sérútbúnir
1. Árni Kópsson – 20 stig
2. Eyjólfur Skúlason – 15 stig
3. Kristmundur Dagsson – 12 stig
4. Guðlaugur Sindri Helgason – 10 stig
5. Benedikt H. Sigfússon – 8 stig
6. Hafsteinn Þorvaldsson – 6 stig
7. Helgi Gunnarsson – 4 stig
8. Sigfús G. Benediktsson – 3 stig
9. Gestur Ingólfsson – 2 stig
10. Jón Örn Ingileifsson – 1 stig
Götubílar
1. Ívar Guðmundsson – 20 stig
2. Jón Vilberg Gunnarsson – 15 stig
3. Sævar Már Gunnarsson – 12 stig
4. Stefán Bjarnhéðinsson – 10 stig
5. Róbert Agnarsson – 8 stig
Næsta keppni verður haldin á Stapafelli á Reykjanesi 21. júlí.