Árborg og Vængir Júpíters skildu jöfn, 1-1, á Selfossvelli í dag í 8-liða úrslitum 4. deildar karla í knattspyrnu.
„Heilt yfir er ég ágætlega sáttur. Við vorum með góð tök á leiknum í fyrri hálfleik, spiluðum fína vörn og náðum að nýta okkur mistök andstæðinganna. En við slökuðum aðeins á varnarleiknum í seinni hálfleik og náðum ekki að færa boltann eins vel sóknarlega,“ sagði Guðjón Bjarni Hálfdánarson, þjálfari Árborgar, í samtali við sunnlenska.is.
Seinni leikur liðanna verður á þriðjudag og Guðjón á von á hörkuleik. „Þetta verður hnífjöfn rimma næstu níutíu mínúturnar og það snýst bara um hvort liðið vill þetta meira. Það er Árborg, við viljum þetta og við ætlum þetta,“ sagði Guðjón ennfremur.
Leikurinn fór mjög rólega af stað en Árborgarar höfðu yfirhöndina fyrsta hálftímann. Á 19. mínútu braut svo Magnús Helgi Sigurðsson ísinn þegar vörn Vængjanna galopnaðist og Magnús skoraði með góðu skoti úr teignum.
Í kjölfarið áttu Árborgarar nokkrar stórhættulegar sóknir og þar var Magnús Helgi í aðalhlutverkinu en hann fékk tvö dauðafæri einn á móti markmanni.
Vængirnir hresstust nokkuð síðasta korterið í fyrri hálfleik og ef vörn Árborgar gaf færi á sér þá bjargaði miðvörðurinn Brynjar Þór Elvarsson því sem bjargað varð. 1-0 í hálfleik.
Vængir Júpíters voru sterkari í upphafi síðari hálfleiks og fengu dauðafæri á 56. mínútu en Einar Guðni Guðjónsson, markvörður Árborgar, varði frábærlega hörkuskot frá Birki Björnssyni í miðjum vítateignum.
Þeir Birkir og Einar endurtóku svo leikinn á 66. mínútu, aftur átti Birkir hörkuskot en Einar varði vel í horn.
Vængirnir jöfnuðu leikinn með marki úr vítaspyrnu á 74. mínútu. Ingimar Helgi Finnsson varði þá með hendi á marklínu og uppskar raut spjald fyrir vikið. Í aðdraganda dómsins hafði einn gestanna handleikið knöttinn og niðurstaðan úr þessum atgangi því virkilega súr fyrir Árborgara.
Atli Hjaltested fór á vítapunktinn og skoraði örugglega, 1-1.
Manni færri reyndu Árborgarar að halda fengnum hlut og það tókst, en bæði lið áttu álitlegar sóknir á lokakaflanum, án þess að takast að skora.
Seinni leikur liðanna verður á Fjölnisvelli þriðjudaginn 1. september kl. 17:30.