Selfoss og Vestri gerðu 2-2 jafntefli í næst síðustu umferð Lengjudeildar karla í knattspyrnu á Ísafirði í dag.
Leikurinn var jafn og skemmtilegur í fyrri hálfleik og á markamínútunni, þeirri 43. kom Gonzalo Zamorano Selfyssingum yfir með glæsilegu marki eftir laglegt spil. Forysta Selfyssinga varði þó aðeins í tvær mínútur því að á lokamínútu fyrri hálfleiks fékk Vestri hornspyrnu og uppúr henni skoraði Nicolaj Madsen. 1-1 í hálfleik.
Seinni hálfleikur byrjaði fjörlega og bæði lið áttu ágætar sóknir. Boltinn rataði þó ekki í netið fyrr en á 77. mínútu að Christian Jiménez setti boltann í eigið net eftir fyrirgjöf inn í vítateig Vestra. Selfyssingar voru sterkari á lokakaflanum og virtust ætla að fljúga þremur stigum heim en Vestri náði að jafna 2-2 með laglegu skallamarki Martin Montipo í uppbótartímanum og þar við sat.
Eftir leiki dagsins færðust Selfyssingar niður í 7. sæti deildarinnar með 29 stig þegar ein umferð er eftir, en gætu farið niður um að minnsta kosti þrjú sæti til viðbótar fari svo að þeim verði dæmdur ósigur í sigurleiknum gegn Grindavík á dögunum, þar sem Selfoss tefldi fram leikmanni sem var í leikbanni.