Selfoss heimsótti Íslandsmeistara Vals á Hlíðarenda í lokaumferð Bestu deildar kvenna í knattspyrnu í dag.
„Þetta var frábærlega spilaður leikur af okkar hálfu. Við spiluðum vel varnarlega og vorum að skapa hættu sóknarlega, þannig að ég er mjög ánægður með okkar frammistöðu,“ sagði Björn Sigurbjörnsson, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.
„Við klárum mótið vel, erum taplaus í síðustu sjö leikjum og erum mjög ánægð með sumarið. Það hefur verið stígandi í þessu og það er það sem er aðal málið. Deildin er að jafnast rækilega út og ég held að þetta verði ennþá jafnara og skemmtilegra á næsta ári og vonandi verðum við þá annað af topp tveimur liðunum,“ sagði Björn að ennfremur.
Fínar sóknir Selfyssinga
Leikurinn var jafn og spennandi allan tímann og ekki að sjá að liðin væru komin í vetrarfrí í huganum. Selfoss byrjaði leikinn mjög vel en bjó ekki til mörg færi. Valur sótti í sig veðrið á lokakafla fyrri hálfleiks en bæði lið fengu fín marktækifæri og á 34. mínútu skallaði Bergrós Ásgeirsdóttir rétt framhjá marki Vals.
Staðan var 0-0 í hálfleik og Selfoss byrjaði seinni hálfleikinn af krafti. Á 55. mínútu braut fyrirliðinn Unnur Dóra Bergsdóttir ísinn eftir hornspyrnu Miröndu Nild. Boltinn hrökk út í teiginn og þar var Unnur Dóra vel staðsett og stýrði boltanum í netið.
Selfyssingar hefðu getað tvöfaldað forystuna skömmu síðar þegar Bergrós átti annan skalla að marki, sem fór rétt yfir. Þess í stað brunuðu Valskonur í sókn, fengu hornspyrnu og upp úr henni skoraði Lára Kristín Pedersen með skoti úr teignum.
Fleiri urðu mörkin ekki. Valskonur voru líklegri á lokakaflanum en Áslaug Dóra Sigurbjörnsdóttir og Sif Atladóttir voru pottþéttar í vörn Selfoss.
5. sætið niðurstaðan
Selfoss lýkur keppni í 5. sæti deildarinnar með 29 stig í nokkuð jöfnum miðjupakka. Valur vann öruggan sigur í deildinni með 43 stig og Stjarnan náði 2. sætinu af Breiðabliki og fær því sæti í undankeppni Meistaradeildarinnar að ári.