Ægir og Höttur gerðu jafntefli í botnbaráttu 2. deildar karla í knattspyrnu í dag. Hamar lá heima gegn Sindra í miklum markaleik.
Darko Matejic kom Ægi yfir í fyrri hálfleik og heimamenn leiddu 1-0 í leikhléinu. Höttur jafnaði metin á 63. mínútu og þar við sat, lokatölur 1-1.
Í Hveragerði léku Sindramenn á alls oddi í fyrri hálfleik. Þeir voru komnir í 0-3 eftir korter og bættu fjórða markinu við undir lok fyrri hálfleiks. Staðan var því 0-4 í hálfleik en Hamar bætti í eftir hlé og Óskar Smári Haraldsson skoraði tvívegis og staðan var 2-4 þegar rúmt korter var eftir af leiknum. Nær komust Hvergerðingar ekki.
Þetta var rauður dagur í 2. deildinni því tveir leikmenn sáu rautt í leik Ægis og Hattar en Matejic var vísað af velli undir lokin og einn gestanna fór sömu leið í uppbótartíma. Í Hveragerði fékk Kristján Valur Sigurjónsson sitt annað rauða spjald í uppbótartíma og er því á leið í tveggja leikja bann.
Ægir er í 9. sæti 2. deildarinnar með 13 stig en Hamar er í 11. sæti með 10 stig.