Jafnt hjá Árborg en Stokkseyri tapaði

Þrír leikir fóru fram í A-riðli 4. deildar karla í knattspyrnu í kvöld. Árborg gerði jafntefli við topplið KFG en Stokkseyri tapaði fyrir botnliði Afríku.

Leikur Árborgar og KFG á Selfossvelli var jafn í fyrri hálfleik. Bæði lið fengu ágæt færi á upphafsmínútunum og Magnús Helgi Sigurðsson var nálægt því að koma Árborg yfir úr dauðafæri. Eftir það róaðist leikurinn nokkuð, gestirnir voru ívið meira með boltann og voru fyrri til að skora þegar þeir sundurspiluðu vörn Árborgar á 34. mínútu.

Guðmundur Sigurðsson, kóngurinn á miðju Árborgar, var ekki sáttur við gang mála og lét vaða að marki utan af velli mínútu síðar og boltinn söng glæsilega í netinu. Árborg lét kné fylgja kviði og fimm mínútum síðar stökk Hartmann Antonsson manna hæst í vítateignum eftir hornspyrnu og skallaði knöttinn fallega í netið.

Staðan var 2-1 í hálfleik en í síðari hálfleik féllu Árborgarar verulega mikið til baka og gestirnir stjórnuðu leiknum algjörlega. Þeir fengu þó ekki mörg færi og það var ekki fyrr en á 75. mínútu að þeir jöfnuðu metin. Skot að marki sem Einar Guðni Einarsson varði vel í marki Árborga en boltinn hrökk til andstæðings sem var óvaldaður á fjærstöng og skoraði hann af öryggi.

Eftir jöfnunarmarkið lá nokkuð á Árborgunum, KFG átti stangarskot og Einar varði skömmu síðar vel á síðustu stundu. Þegar nálgaðist uppbótartímann sóttu Árborgarar hins vegar aftur í sig veðrið og áttu nokkarar góðar sóknir. Árni Páll Hafþórsson átti skot rétt framhjá eftir undirbúning Magnúsar Helga en skömmu áður átti Árborg að fá vítaspyrnu þegar einn gestanna handlék boltann inni í teig og sáu það líklega allir á vellinum nema dómartríóið.

Stokkseyringum gekk ekki jafn vel í heimsókn sinni til Afríku á Leiknisvöllinn í Reykjavík. Gestirnir skoruðu eitt mark í hvorum hálfleik og sigruðu 2-0 en þetta var fyrsti sigur Afríku í sumar.

Í þriðja leik kvöldsins lögðu Kóngarnir Þrótt Vogum á útivelli, 1-2.

Eftir leiki kvöldsins er Árborg áfram í 5. sæti með 13 stig en Stokkseyringar eru komnir í 8. sætið með 3 stig.

Fyrri greinDagný skaut Íslandi í 8-liða úrslitin
Næsta greinSkák í Skálholti