Jafnt í Eyjum eftir æsispennandi lokakafla

Eva Lind Tyrfingsdóttir (10) var markahæst Selfyssinga í dag. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss náði í sterkt stig á útivelli í úrvalsdeild kvenna í handbolta þegar liðið gerði 24-24 jafntefli við ÍBV í Suðurlandsslag í Vestmannaeyjum í dag.

Selfoss komst í 0-2 en þá settu Eyjakonur í gírinn og breyttu stöðunni í 7-4. Selfyssingar náðu vopnum sínum á ný og jöfnuðu 10-10 en ÍBV skoraði þrjú síðustu mörkin í fyrri hálfleik og staðan var 13-10 í leikhléi.

ÍBV var skrefinu á undan framan af seinni hálfleik en þegar níu mínútur voru eftir af leiknum jafnaði Selfoss 20-20 og við tók æsispennandi lokakafli. Jafnt var á öllum tölum til leiksloka og bæði lið fengu sóknir til að gera út um leikinn á lokamínútunni en svo fór ekki og lokatölur urðu 24-24.

Hin unga og efnilega Eva Lind Tyrfingsdóttir var markahæst Selfyssinga með 8 mörk, Katla María Magnúsdóttir skoraði 5, Arna Kristín Einarsdóttir 4, Hulda Dís Þrastardóttir 3, Perla Ruth Albertsdóttir 2 og þær Adela Jóhannsdóttir og Hulda Hrönn Bragadóttir skoruðu sitt markið hvor.

Selfoss er með 3 stig í 6. sæti deildarinnar en ÍBV í 4. sæti með 6 stig.

Fyrri greinJóhanna Ýr í leyfi frá bæjarstjórn
Næsta greinSelfoss fékk skell í Vesturbænum