Jafnt í hörkuleik

4. deildarlið Árborgar og 3. deildarlið KFR skildu jöfn í C-deild Lengjubikars karla í knattspyrnu í dag þegar liðin mættust á Selfossvelli. Lokatölur voru 2-2.

Árborgarar fengu fyrsta færi leiksins þegar Árni Páll Hafþósson skaut framhjá úr dauðafæri. Rangæingar refsuðu síðan á 4. mínútu leiksins þegar vörn Árborgar opnaðist illa. Guðmundur Garðar Sigfússon renndi þá boltanum inn í teiginn þar sem Lárus Viðar Stefánsson skoraði úr galopnu færi.

Árborgarar voru meira með boltann fyrstu 25 mínúturnar en Rangæingar áttu ágætar skyndisóknir. Aron Valur Leifsson var hins vegar vandanum vaxinn í marki Árborgar og tók það sem á ramman kom. Hann gerðist hins vegar brotlegur í 23. mínútu og felldi Guðmund Guðmundsson í teignum. Vítaspyrna dæmd og úr henni skoraði Hjörvar Sigurðsson af miklu öryggi.

Heimamenn voru nokkra stund að ná blautu tuskunni af andlitinu og Rangæingar sóttu í sig veðrið. Á 30. mínútu minnkuðu Árborgarar þó muninn þegar Páll Óli Ólason skoraði með góðu skoti við vítateigslínuna. Hann lagði síðan upp jöfnunarmark Árborgar sem var einstaklega glæsilegt, en Guðmundur Sigurðsson hamraði boltann þá í netið með viðstöðulausu skoti utan teigs.

Staðan var 2-2 í hálfleik en síðari hálfleikur var viðburðalítill. Rangæingar voru meira með boltann en Árborgarliðið varðist vel og gestirnir fengu varla færi. Ævar Már Viktorsson komst næst því að skora þegar hann slapp innfyrir en skaut í stöngina úr ágætu færi á 62. mínútu.

Fyrri greinMarín Laufey hafði algjöra yfirburði
Næsta greinMargt gott í tapleik