Árborg sótti KFS heim til Vestmannaeyja í kvöld í C-riðli 4. deildar karla í knattspyrnu. Leiknum lauk með jafntefli, 1-1.
Leikurinn var markalaus allt þar til á 79. mínútu að KFS komst yfir. Þá voru heimamenn orðnir manni færri eftir brottvísun á 60. mínútu.
Þrátt fyrir góða kafla náði Árborg ekki að nýta sér liðsmuninn en þeir uppskáru þó jöfnunarmark á lokamínútu leiksins þegar Trausti Rafn Björnsson kom knettinum í netið.
Lokatölur 1-1 og allt í hnút á toppi riðilsins. KFS er í toppsætinu með 27 stig, eins og Árborg sem er í 2. sæti með lakara markahlutfall. Álftanes er í 3. sæti með 26 stig og á leik til góða.