Haukur Már Ólafsson og Aco Pandurevic skoruðu mörk Ægis sem gerði 2-2 jafntefli við topplið Aftureldingar í 2. deild karla í knattspyrnu í kvöld.
Gestirnir voru sterkari í fyrri hálfleik og hafði Hugi Jóhannesson nóg að gera í marki Ægis. Hann kom hins vegar engum vörnum við á 22. mínútu þegar gestirnir komust yfir með frábæru skoti upp í samskeytin.
Haukur Már jafnaði hins vegar metin á 35. mínútu og var það nokkuð gegn gangi leiksins en staðan var 1-1 í hálfleik.
Ægismenn voru mun hressari í síðari hálfleik og um hann miðjan komust þeir yfir þegar aukaspyrna var dæmd rétt utan við vítateig Aftureldingar. Darko Matejic var fljótur að hugsa og renndi knettinum innfyrir á Pandurevic sem lyfti boltanum yfir markvörð Mosfellinga.
Forskot Ægis varði þó aðeins í tvær mínútur þvú á 67. mínútu átti Afturelding góða sókn upp hægri kantinn sem endaði með fyrirgjöf og marki.
Lokamínúturnar voru spennandi og fengu Ægismenn t.a.m. tvö dauðafæri rétt undir lok leiks en inn vildi boltinn ekki og lokatölur urðu 2-2.
Þegar keppni í 2. deild er hálfnuð sitja Ægismenn í 9. sæti deildarinnar með 12 stig og næsti leikur er þann 20. júlí á heimavelli gegn botnliði Hattar.