Kvennalið Selfoss tók á móti Val í Pepsi-deildinni í knattspyrnu á Selfossvelli í gær. Gestirnir fóru með 1-3 sigur af hólmi.
„Taktískt séð hefði þessi leikur getað farið jafntefli og það hefði verið sanngjarnt,” sagði Guðjón Bjarni Hálfdánarson, þjálfari Selfoss, í samtali við fotbolti.net, eftir leik. „Það hefur reynst okkur dýrt að nýta ekki færin sem við höfum verið að fá og á sama tíma höfum við ekki verið að fá mikið af færum.“
Jafnræði var með liðunum framan af leiknum en Valur komst yfir á 33. mínútu þegar Mist Edvardsdóttir skallaði boltann í netið eftir hornspyrnu. Tíu mínútum síðar fengu Valsmenn víti þegar Anna María Friðgeirsdóttir braut á Margréti Láru Viðarsdóttur. Margrét Lára fór sjálf á punktinn og skoraði af öryggi, 0-2 í hálfleik.
Valur komst svo í 0-3 strax á fjórðu mínútu síðari hálfleiks og þar var Mist aftur á ferðinni með skoti af stuttu færi eftir aukaspyrnu frá Margréti Láru.
Annars var seinni hálfleikurinn frekar tíðindalítill allt fram á 70. mínútu þegar Sharla Passariello minnkaði muninn í 1-3 með frábæru skoti úr vítateignum. Selfyssingar hefðu getað minnkað muninn enn frekar á 87. mínútu þegar Alyssa Telang skaut framhjá úr góðri stöðu í vítateignum.
Fyrir lokaumferðina er Selfoss með 12 stig í 8. sæti, jafnmörg stig og KR sem er í fallsæti en markahlutfall Selfoss er talsvert betra, svo munar sex mörkum. Fylkir er í 7. sætinu með 13 stig en Selfoss heimsækir Fylki í lokaumferðinni á föstudaginn og getur með sigri tryggt sér áframhaldandi veru í Pepsi-deildinni. Á sama tíma leikur KR gegn botnliði ÍA sem þegar er fallið.
„Við tökum þessa viku sem er framundan til að undirbúa liðið vel og vonandi verða úrslitin þannig að við munum geta fagnað langt fram eftir nóttu. Ég vona að stuðningsmenn okkar fjölmenni í Árbæinn því þetta er verkefni sem við þurfum öll að taka saman þátt í,“ sagði Guðjón Bjarni.