Selfoss lyfti sér upp í 5. sætið í Bestu deild kvenna í knattspyrnu, um stundarsakir í það minnsta, með því að gera 1-1 jafntefli við Stjörnuna á Selfossvelli í dag.
Leikurinn var bragðdaufur heilt yfir og færin af skornum skammti, en mikil barátta úti á vellinum. Stjarnan rúllaði boltanum á upphafsmínútunum en Selfyssingar urðu fyrri til að skora. Miranda Nild kom þeim yfir á 18. mínútu með skoti af stuttu færi eftir fyrirgjöf frá Bergrós Ásgeirsdóttur.
Leikurinn datt niður eftir markið en Stjörnukonur refsuðu Selfyssingum á 38. mínútu og skoruðu jöfnunarmark eftir að Selfyssingar höfðu átt í vandræðum með að spila boltanum upp völlinn úr vörninni.
Staðan var 1-1 í hálfleik og Stjarnan átti seinni hálfleikinn með húð og hári. Færin voru ekki mörg en Tiffany Sornpao þurfti tvisvar að taka á því í marki Selfoss og varði vel í bæði skiptin. Selfyssingar létu ekkert til sín taka í sókninni í seinni hálfleik og sköpuðu sér ekki færi.