Selfoss og Fjölnir skildu jöfn 1-1 í C-deild Lengjubikars kvenna í knattspyrnu í kvöld.
Liðin mættust í Egilshöll í Grafarvogi og það voru heimamenn sem voru sprækari í fyrri hálfleik. Selfossliðið mætti ekki vel stemmt í leikinn og Fjölniskonur fengu mikið pláss til að athafna sig. Fjölnir komst yfir eftir sjö mínútna leik og staðan var 1-0 í hálfleik.
Selfyssingar stóðu sig betur í seinni hálfleik og fengu nokkur ákjósanleg færi áður en Anna María Friðgeirsdóttir jafnaði leikinn á 57. mínútu. Anna María fékk langa sendingu af hægri kantinum frá Fransisku Jóney Pálsdóttur og afgreiddi knöttinn snyrtilega í netið.
Bæði lið fengu tækifæri upp við mörkin til að taka stigin þrjú en niðurstaðan var jafntefli í frekar jöfnum leik.
Leikjaprógramm Selfossliðsins er stíft þessa helgina en Selfoss mætir Sindra á Selfossvelli kl. 11 í fyrramálið. Viðureign liðanna var blásin af vegna veðurs um síðustu helgi og er því um frestaðan leik að ræða.