Selfoss hóf keppni í 1. deild kvenna í knattspyrnu í dag þegar liðið fékk FHL í heimsókn á gervigrasið á Selfossi.
Leikurinn byrjaði fjörlega og strax á 5. mínútu komust gestirnir yfir. Fimmtíu sekúndum síðar lá boltinn í netinu hinum megin, Selfoss tók miðju og eftir fyrirgjöf Jóhönnu Elínar Halldórsdóttur skoraði Unnur Dóra Bergsdóttir með góðu skoti úr teignum.
FHL var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og þær áttu nokkrar ágætar sóknir áður en þær komust aftur yfir á 16. mínútu.
Staðan var 1-2 í hálfleik en á fjórðu mínútu seinni hálfleiks slapp Auður Helga Halldórsdóttir innfyrir og jafnaði, eftir að hún hafði komist inn í misheppnaða þversendingu í varnarlínu FHL.
Þar við sat, bæði lið sköpuðu sér hálffæri í seinni hálfleiknum en mörkin urðu ekki fleiri og liðin skiptu stigunum með sér.