
Það var heldur betur boðið upp á dramatík þegar Selfoss tók á móti Víkingi í 1. deild karla í handbolta í Set-höllinni Iðu á Selfossi í kvöld.
Selfyssingar misstu niður þriggja marka forskot á lokakaflanum en þeir skoruðu ekki mark síðustu sjö mínúturnar, og á meðan breytti Víkingur stöðunni úr 26-23 í 26-26, sem urðu lokatölur leiksins.
Víkingur byrjaði betur í leiknum og skoraði fyrstu þrjú mörkin. Selfoss jafnaði 7-7 og staðan var 12-11 í hálfleik.
Selfyssingar voru skrefinu á undan í seinni hálfleiknum en Víkingar önduðu ofan í hálsmálið á þeim allt þar til rúmar tíu mínútur voru eftir að Selfoss náði að byggja upp þriggja marka forskot. Lokakaflinn var hins vegar í eigu Víkinga sem jöfnuðu metin þegar 54 sekúndur voru eftir en síðasta sókn Selfoss fór í súginn.
Guðjón Baldur Ómarsson og Tryggvi Sigurberg Traustason voru markahæstir Selfyssinga með 7 mörk, Sölvi Svavarsson skoraði 4, Hannes Höskuldsson 3 og þeir Elvar Elí Hallgrímsson, Jason Dagur Þórisson, Hákon Garri Gestsson, Árni Ísleifsson og Haukur Páll Hallgrímsson skoruðu allir 1 mark.
Jón Þórarinn Þorsteinsson varði 11 skot í marki Selfoss og Alexander Hrafnkelsson 1.
Selfyssingar halda þó toppsætinu enn um sinn með 23 stig en öll vötn falla nú til Akureyrar þar sem Þórsarar, sem sitja í 2. sæti þremur stigum á eftir Selfyssingum, eiga tvo leiki til góða. Víkingur er áfram í 3. sæti með 19 stig.