Jafntefli í hörkuleik

Selfoss og Þróttur Reykjavík skildu jöfn í fyrri leik liðanna í undanúrslitum 1.deildar kvenna á Selfossvelli í dag. Lokatölur voru 1-1.

Einar Matthías Kristjánsson skrifar frá Selfossvelli:

Leikurinn fór rólega af stað og greinilegt að mikið lá undir, sól og blíða var á Selfossi og aðstæður hinar ágætustu fyrir um 400 áhorfendur sem lögðu leið sína á gervigrasvöllinn á Selfossi. Eftir 26. mínútna leik tókst Selfyssingum þó að brjóta varnarmúr gestanna á bak aftur er hin stórefnilega Guðmunda Brynja Óladóttir lagði boltann örugglega í netið eftir frábæran undirbúning frá hinni 15 ára Evu Lind Elíasdóttir. Fimm mínútum seinna var heimaliðið ljónheppið að fá ekki dæmt á sig víti er Margrét Hólmgeirsdóttir komst í gegn og virtist ná að sparka í boltann á undan Dagnýu Pálsdóttir markmanni Selfyssinga. En dómarinn Smári Stefánsson var með allt sitt á hreinu og dæmdi einungis hornspyrnu við litla hrifningu Þróttara.

Þróttarstúlkur mættu sprækar í seinni hálfleikinn og er rúmlega korter var liðið af honum komst Margrét Hólmgeirsdóttir ein í gegn eftir gott hlaup upp vinstri kantinn og lagði boltann af öryggi í fjærhornið án þess að Dagný markmaður næði að koma neinum vörnum við. Eftir jöfnunarmarkið var leikurinn tiltölulega rólegur, Dagný í markinu þurfti varla að koma við boltann það sem eftir lifði leiks og Selfyssingum gekk illa að sækja að marki gestanna fyrir utan tvær úrvals tilraunir frá Guðmundu Brynju. Fyrra færið kom eftir frábæra sendingu frá Önnu Þorsteinsdóttir sem sendi Guðmundu eina í gegn en Ása Aðalgeirsdóttir markmaður Þróttar var vel á verði. Seinna færið kom síðan í uppbótartíma er Guðmunda átti hörkuskot fyrir utan teig sem Ása markvörður gestana varði meistaralega.

Það er því ljóst að um hörkuleik verður að ræða í Laugardalnum næstkomandi miðvikudag enda tryggir sigurvegari þessa einvígis sér sæti í efstu deild á næsta ári.

Fyrri greinSorphirðugjald mun hækka
Næsta greinHamar tapaði í Ólafsvík