Jafntefli í lokaleik Árborgar

Aron Freyr Margeirsson skoraði mark Árborgar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Knattspyrnufélag Árborgar gerði 1-1 jafntefli við Knattspyrnufélag Hlíðarenda í lokaumferð 4. deildar karla í knattspyrnu á Selfossvelli í dag.

Gestirnir komust yfir strax á 3. mínútu leiksins með frábæru aukaspyrnumarki. Eftir það voru Árborgarar meira með boltann en náðu ekki að skapa sér teljandi færi og staðan var 0-1 í leikhléi. Fimm mínútum fyrir hálfleik fékk leikmaður KH að líta rauða spjaldið þannig að Árborgarar voru manni fleiri síðustu 50 mínútur leiksins.

Seinni hálfleikurinn hófst á stórsókn Árborgar sem stóð nánast allan seinni hálfleikinn. KH menn vörðust hins vegar fimlega en þegar leið á leikinn var ljóst að eitthvað varð undan að láta. Það var síðan Aron Freyr Margeirsson sem náði að bjarga stigi fyrir Árborg með góðu marki í uppbótartímanum.

Það stig skipti reyndar litlu máli því möguleikar Árborgar á sæti í úrslitakeppninni voru úr sögunni fyrir leik. Árborg lauk keppni í D-riðlinum í 3. sæti með 24 stig. Liðið vann sjö leiki í sumar, gerði tvö jafntefli og tapaði fjórum leikjum.

Fyrri greinJóna Katrín leysir Halldór Pál af
Næsta greinHólmfríður allt í öllu gegn gömlu félögunum