Árborg og KFR skildu jöfn í viðureign sinni í C-deild Lengjubikars karla í knattspyrnu á Selfossvelli í dag. Í sömu deild mættu Uppsveitir til leiks í dag og Hamar lék sinn fyrsta leik á föstudagskvöldið.
Rangæingar voru sprækari í fyrri hálfleik og fengu betri færi en Árborgarar refsuðu þeim á 27. mínútu þegar Magnús Hilmar Viktorsson smellti boltanum í netið. Staðan var 1-0 í hálfleik en jöfnunarmark KFR lá í loftinu í seinni hálfleik. Það kom á 75. mínútu, glæsilegur skalli frá Hjörvari Sigurðssyni og þar við sat, 1-1 í hörkuleik.
Uppsveitir sáu ekki til sólar inni Reykjaneshöllinni í dag, þegar þeir mættu Höfnum. Staðan var orðin 5-0 eftir hálftíma leik en þá minnkaði Sindri Þór Arnarson muninn fyrir Uppsveitir. Þetta var eina mark ÍBU í dag en Hafnir bættu við fimm til viðbótar og lokatölur urðu 10-1.
Í sama riðli mættust Ýmir og Hamar á föstudagskvöldið. Ýmir komst yfir strax á 3. mínútu og bætti svo við öðru marki um miðjan fyrri hálfleikinn. Steinar Benóný Gunnbjörnsson minnkaði muninn fyrir Hamar undir lok fyrri hálfleiks og staðan var 2-1 í hálfleik. Þær urðu svo lokatölur leiksins því hvorugu liðinu tókst að bæta við marki í seinni hálfleiknum.