Það var hörkuleikur á SS-vellinum á Hvolsvelli í kvöld þegar tvö efstu liðin í B-riðli 5. deildar karla í knattspyrnu mættust.
KFR tók þar á móti Smára úr Kópavogi og Rangæingar komu sér í góða stöðu snemma leiks með mörkum frá Aroni Birki Guðmundssyni og Hákoni Kára Einarssyni. Gestirnir minnkuðu muninn í 2-1 áður en hálfleiksflautan gall og þannig stóðu leikar í hálfleik.
Aftur glöddust liðsmenn KFR þegar varamaðurinn Bjarni Þorvaldsson kom þeim í 3-1 í seinni hálfleiknum. Það voru hins vegar Smáramenn sem áttu lokaorðið og þeim tókst að jafna 3-3 áður en yfir lauk.
Staðan í B-riðlinum er þannig að KFR er á toppnum með 25 stig og Smári er í 2. sæti með 23 stig og á leik til góða.